þriðjudagur, 29. janúar 2008

1.FEBRÚAR

Spyrill dagsins er Björn Gunnlaugsson.
Þessa helgina eru liðin tvö ár síðan vertinn okkar hann Steini opnaði staðinn að nýju eftir eigendaskipti. Þótti því við hæfi að hafa þema keppninnar BJÓR.

Sigurvegarar keppni síðustu viku voru Bjarki Þór Steinarsson og Úlfur Einarsson með 17 stig út úr keppninni sjálfri og önnur 4 út úr bráðabana.

laugardagur, 26. janúar 2008

REGLUR

Keppnin gengur undir nafninu Drekktu betur og er haldin á efri hæð Grand Rokk, Smiðjustíg 6, hvern föstudag klukkan 18:00.

Í hverri viku mætir nýr spyrill með 30 spurningar í farteskinu. Æskilegt er þó að hver spyrill sé einnig með 10-15 spurningar sem hægt er þá að nota í bráðabana og sem gjammspurningar.

Hvert lið sem keppir skal innihalda tvo einstaklinga. Ekki fleiri, ekki færri.

Þegar spyrill hefur lokið við að spyrja sinna 30 spurninga gefst keppnisliðum tími til að fara yfir svör og jafnvel að láta spyril lesa einstaka spurningar aftur. Því næst skiptast lið á svarblöðum, þannig að ekkert lið fer yfir eigin svarblað.Þegar búið er að fara yfir allar spurningar, skiptast liðin aftur á blöðum og á þá hvert lið að vera komið með sitt svarblað í hendur.Eftir það er farið yfir hvaða lið er með flest svör rétt. Til að eiga möguleika á bjórkassanum sem er í verðlaun, þarf sigurliðið að vera með 15 svör rétt eða fleiri.

Í hverri keppni er Bjórspurning. Þau lið sem ná að svara þeirri spurningu rétt eiga þá inni tvo litla bjóra á barnum. Spyrill þarf þó að kvitta fyrir Bjórspurninguna.

Bráðabani: Þegar tvö eða fleiri lið hafa jafnmörg svör rétt eftir 30 spurningar skal gripið til bráðabana. Þá er fyrst spurt 5 spurninga og reynt að knýja fram sigurvegara með flestum svörum réttum. Ef ekki fæst sigurlið úr þessum 5 spurningum skal spyrja þriggja spurninga að auki. Ef ekki fást niðurstöður eftir það, skal spyrill spyrja spurninga, einnar og einnar í einu þar til úrslit fást.

Gjamm og háreysti, sérstaklega í þeim tilvikum að svör eru kölluð yfir salinn, er einkar illa liðið. Er þá skipt um spurningu og svokölluð gjammspurning leysir þá fyrri af hólmi og gildir þá aðeins svarið við gjammspurningunni, en ekki spurningunni sem var spurt áður. Í grófum tilvikum, til dæmis við ítrekað gjamm, má vísa keppanda af keppnissvæði. Spyrill er dómari og alvaldur og getur því tekið af skarið ef vafi leikur á staðreyndum í spurningu eða svari. Vilji spyrill ekki sjálfur taka afstöðu, má hann vísa til keppnisstjórnar, sem þá fellir dóm.

Keppnisgjöld eru engin, en þar sem við fáum salinn endurgjaldslaust er mælst til að keppendur versli sér áfengi á barnum. (Keppnin heitir jú Drekktu Betur) Keppnisstjórn er heimilt í öllum tilvikum að kalla á lyfjapróf leiki grunur um að sigurlið hafi ekki innbyrt að hinu minnsta einn bjór, eða sambærilegan drykk.

Góða skemmtun og drekkum betur.

Gunnar F. Árnason
Keppnisstjóri

laugardagur, 19. janúar 2008

25. JANÚAR

Spyrlar föstudaginn 25. janúar eru Pétur Orri Gíslason og Óli Kári Ólason.

Sigurvegarar þann 18. janúar voru Kristján Guy Burgess og Örn Úlfar Sævarsson, en þeir náðu 20 stigum út úr keppninni og svo öðrum fjórum úr bráðabana.

sunnudagur, 13. janúar 2008

18. JANÚAR

Spyrill dagsins er Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Sigurvegarar síðustu keppni voru Kjartan Guðmundsson og áðurnefndur Kolbeinn. Höfðu þeir 24 stig út úr keppninni.

þriðjudagur, 8. janúar 2008

11. JANÚAR

Spyrill föstudaginn 11. janúar er Gísli Marteinn Baldursson.

Sigurvegarar síðustu keppni voru Björn Gunnlaugsson og Jón Ásgeirsson og höfðu þeir 17 stig út úr keppninni.

fimmtudagur, 3. janúar 2008

4. JANÚAR

Spyrlar fyrstu keppni ársins eru Steinþór Sigurðsson og Ævar Örn Jósepsson.

Drekktu betur óskar öllum keppendum, spyrlum og velunnurum gleðilegs árs.
Megum við öll eiga góðar stundir í hvers annars félagsskap.

View My Stats